Hver er ég?

Ég heiti Steinunn Kristín, Selfossmær sem ólst þó að miklu leyti upp í uppsveitunum. Ég var ung byrjuð að prjóna og hekla enda var mamma iðin með prjónana og dugleg að sýna mér og kenna mér handbrögðin.
Eins og aðrir sveitungar gekk ég í skóla á Laugarvatni og fékk góða viðbótarkennslu hjá henni elsku Öddu, handavinnukennaranum í Héró sem kenndi mér það sem uppá vantaði. Prjónarnir hafa því alltaf verið skammt undan, svo til alveg síðan ég man eftir mér.

Ásamt því að vera konan hans Halla þá er ég móðir 3ja snillinga og amma hans Matthíasar Hauks. Við eigum svo líka einn Schafer hund,  hinn tæplega10 ára gamla Goða, og French bulldog hvolpinn Mola svo það er nóg að gera á heimilinu.
Alltaf er þó tími til að prjóna, enda margsannað mál að "knitting is the new yoga". 

Ég skrifaði og gaf út mína fyrstu uppskrift síðsumars 2019 og eftir það var ekki aftur snúið. Mér finnst afskaplega gaman að leika mér að því að koma fallegum mynstrum fyrir í hinum ýmsu prjónaflíkum og gaman að sjá hvernig sama mynstrið getur passað ólíkum flíkum.
Mér finnst skemmtilegast að prjóna ungbarnaflíkur en þó er alltaf gott að grípa í dásamlega íslenska lopann og henda í eina og eina lopapeysu inn á milli.